RRSKIL

  • Increase font size
  • Default font size
  • Decrease font size
Member Area
Samþykktir Prentvæn útgáfa Senda í tölvupóst

I. HEITI
1. gr.

Félagið heitir RR-SKIL.  Hér eftir nefnt „félagið“. Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.


II. MARKMIÐ OG VERKEFNI
2. gr.

Markmið félagsins er að reka skilakerfi framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003. Í því skyni rekur félagið skrifstofu og annast söfnun og endurvinnslu raf- og raftækjaúrgangs fyrir framleiðendur og innflytjendur gegn gjaldi eins og nánar er rakið í samþykktum þessum.  Tekjur skulu að jafnaði vera hærri en gjöld.

Starfssvæði félagsins er allt landið.

3. gr.

Í samræmi við markmið félagsins skal það vinna að eftirtöldum verkefnum:

a) kosta afnot af aðstöðu raf- og rafeindatækjaúrgangs frá heimilum á söfnunarstöðvum sbr. lög nr.55/2003,

b) tryggja söfnun og móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi frá söfnunarstöðvum og í samráði við söfnunaraðila,

c) tryggja að raf- og rafeindatækjaúrgangur sé meðhöndlaður af atvinnurekstri sem hefur gilt starfsleyfi,

d) kosta geymslu, safna og taka á móti og kosta meðhöndlun á því heildarmagni raf- og rafeindatækjaúrgangs sem jafngildir markaðshlutdeild þeirra framleiðenda og innflytjenda sem eiga aðild að félaginu.


III. FÉLAGAR
4. gr.


Fyrirtæki eða aðrir aðilar, einstaklingar eða lögaðilar sem eru annaðhvort framleiðendur eða innflytjendur á raf- og rafeindatækjum  eins og hugtök þessi eru skilgreind í lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 geta orðið félagsmenn í félaginu.

 

5. gr.

Sækja þarf skriflega um aðild að félaginu. 

Er það skilyrði fyrir félagsaðild að félagsmaður undirriti aðildarumsókn þar sem fram kemur að hann hafi kynnt sér samþykktir þessar og skuldbindi sig til að hlíta þeim svo og öllum ákvörðunum stjórnar félagsins um greiðslu endurvinnslugjalds  svo og þeim verklagsreglum sem stjórn setur á hverjum tíma um s.s. um skráningu félagsmanna í skráningarkerfi stjórnsýslunnar og um samskipti félagsmanna við skilakerfið. Jafnframt heimili hann félaginu að afla upplýsinga frá opinberum aðilum um innflutning og/eða framleiðslu sína í því skyni að ákvarða endurvinnslugjöld félagsmannsins. Ef þess er óskað skal hver félagsmaður veita félaginu upplýsingar fyrir 1. febrúar ár hvert um sölu á næstliðnu ári á raf- og rafeindatækjum sem falla undir lög um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 . Skal skýrslan vera í því formi sem félagið ákveður.  Fari félagið fram á slíkt, skal félagsmaður sýna fram á að upplýsingar skýrslu sinnar séu réttar. 

Stjórn félagsins er heimilt að setja það sem skilyrði félagsaðildar tiltekins félagsmanns að viðkomandi leggi fram tryggingu sem nægileg er að mati stjórnar félagsins til að tryggja fjárhagsskuldbindingar félagsmannsins við félagið.

6. gr.

Í ábyrgð framleiðenda og innflytjanda raf- og raftækja skv. lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 fellst að þeir skulu fjármagna geymslu og meðhöndlun úrgangs raf og rafeindatækja frá heimilum. Til að standa straum af þessu skal hver félagsmaður greiða endurvinnslugjöld til félagsins. Endurvinnslugjöldin skulu vera í samræmi við ráðstöfunarkostnað mismunandi tækja og magn þeirra raf- og rafeindatækja sem viðkomandi félagsmaður flytur inn eða framleiðir.  Félagið reiknar út endurvinnslugjöld hvers félagsmanns og innheimtir þau. Stjórn félagsins ákveður upphæð endurvinnslugjalda og hvernig innheimtu þeirra er háttað.  Nýir félagsmenn greiða endurvinnslugjöld frá og með þeim mánuði  sem er að líða þegar þeir ganga í félagið enda hafi þeir áður verið í öðru skilakerfi eða eru að hefja innflutning eða framleiðslu á rr-tækjum.  Annars greiða þeir gjald fyrir það tímabíl (nú 6 mánuðir) sem fyrsti reikningur nær til.

7. gr.

Úrsögn úr félaginu þarf að vera skrifleg og með tveggja mánaða fyrirvara miðað við mánaðamót. Úrsögn breytir engu um skyldu til greiðslu endurvinnslugjalds þess mánaðar er úrsögnin tekur gildi. Við úrsögn verða þegar greidd gjöld til félagsins ekki endurgreidd.

Frá og með úrsögn eða brottvísun félagsmanns tekur félagið ekki lengur ábyrgð á að viðkomandi félagsmaður uppfylli skilyrði laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003.  Skal stýrinefnd raf- og rafeindatækjaúrgangs tilkynnt um úrsögn eða brottvísun félagsmanns.

8. gr.

Stjórn félagsins getur með 2/3 atkvæða ákveðið að vísa félaga úr félaginu í  sérstökum tilvikum, svo sem ef um alvarlegt brot er að ræða gegn hagsmunum eða tilgangi félagsins, brot á samþykktum þess eða alvarlegt brot á landslögum.

Greiði félagsmaður ekki tilsett gjöld til félagsins á gjalddaga eða veiti ekki nauðsynlegar upplýsingar á tilsettum tíma til að hægt sé að reikna út endurvinnslugjöld hans, verður viðkomandi vísað úr félaginu. Í slíkum tilvikum skal félagið senda viðkomandi skriflega aðvörun á það heimilisfang sem félagsmaður hefur tilkynnt félaginu. Í aðvöruninni skal koma fram að viðkomandi verði vísað úr félaginu innan mánaðar frá næstu mánaðarmótum að telja án frekari viðvarana sé skuldin ekki greidd innan þess tíma.

IV. AÐALFUNDUR
9. gr.

Aðalfund ber að halda eigi síðar en í maí á hverju ári.  Boðað skal til aðalfundar á tryggilegan hátt með minnst 14 daga fyrirvara.  Dagskrá skal fylgja aðalfundarboði auk tillagna til breytinga á samþykktum ef einhverjar eru.  Aðalfundur er lögmætur ef boðað er til hans í samræmi við samþykktir félagsins.

Stjórn félagsins getur boðað til almenns félagsfundar með minnst 14 daga fyrirvara.   Í fundarboði skal tilgreina dagskrá fundarins.

10. gr.

Allir félagar eiga rétt á því að mæta á fundi félagsins, bera fram tillögur og greiða atkvæði. 

Atkvæði skulu svara til greiddra endurvinnslugjalda á næstliðnu reikningsári og skal félagið semja um hver áramót atkvæðaskrá sem tekur gildi 1. mars ár hvert.  Atkvæðaskráin í heild skal ekki birt félagsmönnum og skal hver félagsmaður eingöngu fá upplýsingar um sitt eigið atkvæðamagn. Atkvæðaskráin skal staðfest af framkvæmdastjóra og endurskoðanda félagsins. Svara þá kr. 1.000 í greiddum endurvinnslugjöldum til eins atkvæðis en greiðslur eldri skulda reiknast ekki til atkvæða.

Félagsmanni er heimilt að veita öðrum félagsmanni umboð til að fara með atkvæðisrétt sinn.

Atkvæði skulu greidd með handauppréttingu nema sérstaklega sé farið fram á skriflega atkvæðagreiðslu.

11. gr.

Formaður stjórnar félagsins stýrir aðalfundi eða tilnefnir sérstakan fundarstjóra.  Fundarstjóri tilnefnir fundarritara.

Haldin skal fundargerð um það sem fram fer á fundinum og skal fundargerð undirrituð af fundarstjóra og fundarritara og send félagsmönnum.

12. gr.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1. Skýrsla stjórnar.
2. Ársreikningar.
3. Kosning formanns og fjögurra stjórnarmanna og ákvörðun þóknunar til þeirra.
4. Kosning endurskoðanda.
5. Kynning á fjárhagsáætlun yfirstandandi rekstrarárs.
6. Breytingar á samþykktum.
7. Önnur mál.

Heimilt er að breyta röð dagskrárliða með samþykki aðalfundar.


V. STJÓRN OG FRAMKVÆMDASTJÓRI
13. gr.

Í stjórn félagsins sitja formaður og 4 stjórnarmenn sem kosnir skulu af aðalfundi til eins árs. Stjórnarsetan er bundin því fyrirtæki sem stjórnarmaður starfar fyrir.  Láti stjórnarmaður af starfi hjá viðkomandi fyrirtæki, segi fyrirtækið sig úr RR-SKILUM eða sé vísað úr því þá tapar stjórnarmaðurinn rétti til stjórnarsetu.  Stjórn RR-SKILA er þá heimilt að kalla inn stjórnarmann til bráðabirgða fram að næsta aðalfundi.  

Formaður skal kosinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn í einu lagi. Séu fleiri í framboði til stjórnar en sem nemur fjölda stjórnarsæta skal kosning fara fram skriflega og í einu lagi.  Hver atkvæðisbær félagsmaður má greiða jafnmörgum frambjóðendum atkvæði og nemur fjölda stjórnarsæta sem kosið skal um, en heimilt er að greiða færri frambjóðendum atkvæði.  Afl atkvæða ræður úrslitum en falli atkvæði jafnt skal hlutkesti ráða.

Í stjórn skal ekki sitja nema einn fulltrúi hvers félagsmanns og skal einnig leitast við að stjórnin endurspegli mismunandi vöruflokka raf- og raftækja skv. flokkun í lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003. 

Nýkjörin stjórn skal skipta með sér verkum.

14. gr.

Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum þess á milli aðalfunda.  Hún skal koma saman til fundar eftir því sem þörf krefur og formaður ákveður. Fari einhver stjórnarmanna fram á fund skal orðið við beiðni hans og fundur boðaður.

Stjórnarfundi skal boða á tryggilegan hátt og með a.m.k. 7 daga fyrirvara nema brýna nauðsyn beri til annars. Heimilt er að halda stjórnarfundi með aðstoð rafrænna miðla.

Stjórnin er ákvörðunarbær ef a.m.k. þrír stjórnarmenn sitja fund.  Við ákvarðanatöku gildir einfaldur meirihluti.  Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði stjórnarformanns úrslitum.


15. gr.

Stjórn félagsins skal ráða framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur félagsins.  Framkvæmdastjóri skal hafa seturétt á öllum fundum félagsins nema fundarmenn ákveði annað í tiltekið skipti.

16. gr.

Meirihluti stjórnar hefur heimild til að skuldbinda félagið með undirritun sinni.  Framkvæmdastjóri fær prókúru til að skuldbinda félagið vegna daglegs rekstrar.


VI. TRÚNAÐUR
17. gr.

Stjórnarmenn eða félagsmenn skulu ekki hafa aðgang að upplýsingum um markaðshlutdeild eða innflutning á vörum sem sendar eru inn til félagsins vegna ákvörðunar um endurvinnslugjöld. Framkvæmdastjóri, endurskoðandi og annað starfsfólk félagsins sem starfs síns vegna hefur yfir að ráða upplýsingum um innflutning og markaðshlutdeild félagsmanna skulu undirrita sérstaka trúnaðaryfirlýsingu við ráðningu vegna þessara upplýsinga.

VII. FJÁRMÁL
18. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Reikningar félagsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda sem kosinn er á aðalfundi félagsins.  Þeir skulu bornir upp til samþykktar á aðalfundi.


VIII.  BREYTINGAR Á SAMÞYKKTUM
19. gr.

Tillögur til breytinga á samþykktum skulu berast stjórn í tæka tíð þannig að þær megi kynna í fundarboði vegna aðalfundar, sbr. 9. gr.  Ákvörðun um breytingar skal taka á aðalfundi og til að tillaga nái fram að ganga þurfa a.m.k. 2/3 fundarmanna að samþykkja hana.

20. gr.

Tillögur um slit félagsins skulu sæta sömu meðferð og breytingar á samþykktum. 

Verði ákvörðun um félagsslit samþykkt skal aðalfundur jafnframt ákveða á hvern hátt hreinni eign félagsins skuli ráðstafað. Skal við slíka ákvörðun miðað við að láta eignir félagsins renna til félagsmanna í samræmi við greiðslu endurvinnslugjalda næstliðins árs. Aðalfundur skal jafnframt kjósa skilanefnd til þess að ganga frá skuldbindingum félagsins og ráðstafa þeim eignum sem eftir verða í samræmi við áðurnefnda ákvörðun aðalfundar.

21. gr.

Samþykktir þessar voru samþykktar á stofnfundi RR-Skila þann 10. júlí 2008. Þær taka þegar gildi. Samþykktunum breytt á aðalfundi 3.mars 2009 og á aðalfundi 8.maí 2013.